top of page

Tæknin eyðir út „föndrinu“ – Hreysti segir bless við handvirkar verðmerkingar eftir 35 ár

  • Writer: berglind
    berglind
  • Oct 22
  • 2 min read

Hreysti, ein elsta og virtasta heilsuræktarverslun landsins, hefur tekið stórt skref í nútímavæðingu með því að innleiða Pricer rafrænar verðmerkingar frá Edico. Þetta markar endalok 35 ára ferlis handvirkra verðbreytinga sem hingað til voru bæði tímafrekar og erfiðar.


Hreysti, sem hefur starfað frá árinu 1988 og rekur verslun í Skeifunni 19, netverslun og lagerhúsnæði, stóð frammi fyrir kunnuglegri áskorun: tímafrekar verðbreytingar. Allar breytingar voru áður unnar með handvirkum hætti — prentað út, klippt, fundinn réttur staður og komið fyrir á réttri hillu.


ree


Vandamálið: Hætta á mistökum og tímafrekt „föndur“


Með yfir 3.000 vörunúmer var verðbreytingar hlutfallið hátt og ferlið gat tafið mikilvægar ákvarðanir.

Gunnar Emil Eggertsson, framkvæmdastjóri Hreysti, lýsir ástandinu áður en Pricer lausnin var tekin í notkun:


„Við erum með yfir 3.000 vörunúmer svo það kemur ansi reglulega fyrir að við þurfum að fara í verðbreytingar. Áður en við tókum inn Pricer þýddi þetta talsvert föndur – öllu smellt upp í Excel og prentað út blað sem við svo klipptum til í miða. Þó þetta hafi nú ekki verið flókið gat þetta tekið talsverðan tíma ef um margar vörur var að ræða og virkaði sem ákveðin hraðahindrun. Oft á tíðum hreinlega seinkaði maður verðbreytingum og þegar maður seinkar slíku eru meiri líkur á að þær gleymist. Tala nú ekki um afsláttarkeyrslurnar sem voru hrein martröð, ef um stóra og mikla afsláttardaga var að ræða eins og Black Friday.“


Lausnin: Tæknin einfaldar og sparar tíma


Með innleiðingu Pricer rafrænna verðmerkinga frá Edico er þessi áskorun úr sögunni.

Pricer verðmerkingarnar tryggja að allar verðbreytingar sem gerðar eru í bókhaldskerfinu speglast strax í versluninni, sem kemur í veg fyrir mannleg mistök og sparar starfsfólki ómældan tíma.


„Með Pricer lausninni frá Edico er þessi vinnuþáttur úr sögunni. Um leið og verðum er breytt í bókhaldskerfinu speglast þær fram í búð. Þetta er einn af þessum vinnuþáttum sem tæknin hreinlega eyðir út og við getum einbeitt okkur að því að veita betri þjónustu. Topp meðmæli frá okkur í Hreysti.“

Gunnar segir að þessi nýja lausn leyfi starfsfólki að beina orku sinni að því sem skiptir mestu máli – að veita viðskiptavinum betri þjónustu og ráðgjöf.


ree

 
 
bottom of page